31.12.2011 13:31
Vetrarferð fyrir 68 árum
Mér er alveg sama þótt sumir nútíma sjómenn kalli þetta "árabátadýrkun" eða eitthvað svoleiði. Saga íslenskra sjómanna í WW 2 má aldrei gleymast. Frekar en íslendingasögurnar. Þetta er ekkert síður sögur af "víkingum" Víkingum sem fóru með friði og sáu þjóð sinni og annara fyrir nauðsynjum. En voru varnarlausiir, skotnir til bana af "óvininum" í lofti á láði og í undirdjúpunum.
Menn sem hinn "íslenski aðall" með einhverja menningarvita í fararbroddi. vildi ekkert vita af. Og kölluðu sanngjarna þóknun til þeirra sem sigldu á hættulegustu svæðunum "hræðslupeninga" Og fulltrúar þessara manna sem hættu lífi sínu til að brauðfæða þennan aðal var ekki einusinni boðið í veislu sem haldin var á Hótel Borg í tilefni lýðveldststofnuninnar 1944. Eða að vera viðstaddir embættistöku fyrsta þjóðkjörna forseta íslenska Lýðveldisins 1945. Þar gengu fyrir listamenn atvinnurekendur o.fl þvílíkir Og spurt var í Sjómannablaðinu 1945 :"Hvenær fá hinir ágætu "etikéttu"-meistarar okkar ráðna bót á minnisleysi sínu" Svar mitt er þeir hafa ekki fengið minnið enn. Þeir óttast slorlyktina enn En nóg af þessu.
Líkan af Helga VE 333 smíðað af langafabarni smiðs frumgerðarinnar Tryggva Sig
© Tryggvi Sigurðsson
Hér er bréf frá einum af fræknustu "siglingaköppum" íslenskum í WW 2. Hallgrímur Júlíusson skipstjóri á Helga VE 333 sendir vini sínum þetta bréf sem svo sendir Sjómannablaðinu Víking það. Bréfið er skrifað 1943 en blaðið birtir það í 9 tbl 1944 Gerið svo vel hérna er fyrrihluti bréfsins: "Þórður! Góði kunningi. Mér er margt lagnara en að skrifa og semja bréf og bið ég þig að taka viljann fyrir verkið að þessu sinni. Það, sem kom mér til að setjast við að reyna að hnoða saman nokkrum línum var það, að Klara heyrði það eitt sinn á þeim Önnu og Systu, að þig langaði til að heyra um hvernig okkur hefði gengið í túrnum, sem við fórum um miðjan febrúar og mest var talað um bæði hér og annarsstaðar, en sem betur fór, fór vel að lokum fyrir alla aðila. Ég skal geta þess að engin beinlínis hætta var á ferðum fyrir gott skip, sem.og sýndi sig í þetta skipti, að "Helgi" er betra skip í sjó að leggja, heldur en ég hef áður kynnst, og satt að segja vissi ég ekki fyr sjálfur, hversu gott skip hann er né heldur hve mikið mátti á hann leggja.
Stýrishúsið á líkaninu En langafi Tryggva Gunnar Marel smíðaði Helga án allra teikninga
© Tryggvi Sigurðsson
En eftir þetta veður, eða réttara sagt þessa ferð, tel ég mig þekkja hann; og vildi ég óska að ég fengi aldrei aftur slíkar stympingar við náttúruöflin á verra skipi en hann er. Þú veizt hvernig "Helgi" er innréttaður, svo að ég þarf ekki að lýsa þvi fyrir þér, en ég ætla að segja þér hvernig hann var lestaður áður en ég byrja að segja frá sjálfri ferðinni, vegna þess að allskonar tröllasögur gengu um allt vegna hleðslunnar. En það sanna var að skipið lá nákvæmlega á hleðslumerkjum, þegar farið var af stað. Hitt var rétt að við vorum með þilfarslest og auk þennar höfðum við fisk í lúkarnum. Þilfarslestinni var þannig komið fyrir að um eitt hundrað venjulegra fiskikassa var komið fyrir í göngunum, undir bátadekki, og 40 kössum á lestarlúgu, og var sett góð yfirbreiðsla yfir þá og borðum stillt upp umhverfis.
Hér í smíðum
Var þetta síðan vendilega bundið, bæði með vírum og tói, og að öðru leyti var gert "sjóklárt" eins og venja er, þegar skip leggur upp í langferð. Nú get ég farið að byrja á sjálfri ferðasögunni og tek hana að mestu leyti upp úr dagbók skipsins, þó ekki í sama formi, því að dagbókarfærsla er nokkuð þyrkingsleg og leiðinleg aflesturs, og líkist meira "niður punktun" ræðumanna, heldur en venjulegu lesmáli, og hér kemur nú loks frásögnin: Aðfaranótt miðvikudagsins 17. febr. Klukkan 2 lögðum við af stað frá Vestmannaeyjum áleiðis til Englands. Veður var þungbúið og allhvass vindur af vestri með dimmum snjóéljum öðru hvoru. Þegar út fyrir höfnina kom reyndist vera töluverður sjór og braut úr báru annað slagið, en ekki svo hættulegt væri ef góð gát var á öllu höfð; eigi að síður var siglt með hægri ferð á meðan dimmt var af nóttu. I birtinguna fór veður heldur versnandi, var þó sett á fulla ferð en þó slegið af, ef hættuleg brot sáust og sýnilega hefðu lent á skipinu ef nægileg aðgætni hefði ekki verið viðhöfð.
Svenni Matt kunnur Eyjasjómaður á brúarvængnum og Hallgrímur skipstjóri í glugganum næst okkur
© Tryggvi Sigurðsson
Gekk svona allan daginn til kl. 18; þá fór að verða styttra á milli éljanna og komínn rokstormur, en það sem verst var, var að vindurinn gekk til á fjórum strikum, frá VSV til VNV, gerði það sjóinn torfarinn, enda kom fyrir að sjóir riðu yfir skipið, einkum í hryðjunum,sást þá ekki til sem skyldi og varð þá nánast að treysta á heyrnina, ef hægt væri að greina fall sjóanna gegnum storminn, og áætla fjarlægð og þunga þeirra eftir því.
Mynd af skipshöfninni á Helga 1945 Myndin er tekin í Fleedwood. Á henni eru frá vinstri í fremri röð talið Jón Valdimarson yfirvélstjóri, Sveinn Matthíasson matsveinn, Magnús Jónsson 2 vélstjóri, Gunnar Eiríksson háseti. aftari röð frá vinstri Hjálmar Jónsson stýrimaður, Ólafur Sigurðsson stýrimaður, Hallgrímur Júlíusson skipstjóri, og Jósef Markússon háseti.
Klukkan um 19.30 kom sjór þvert á skipið stjórnborðs-megin, reif hann skjólborðið burt frá vanti og aftur að bátadekki og lagði það inn á þilfar; var þá sett á hæga ferð og skipinu haldið meira undan vindi, en jafnframt varð það töluvert frá þeirri stefnu, sem raunverulega átti að halda, var haldið svona á aðra klukkustund, tók nú óðu mað dimma af nóttu og tunglið ekki komið upp, varð svo dimmt í éljunum að ekki sást fram fyrir skipið, var þá snúið upp í vind og sjó, vegmælir tekinn og sýndi að farnar höfðu verið 132,0 sjómílur. Skömmu síðar heyrðist í miklum sjó, virtist hann eftir gnýnum vera bakborðsmegin við stefnuna, og var skipinu snúið aðeins í þá átt, upp að honum, til að taka hann beint á stefnið. Varla var skipið komið í áttina að sjónum, þegar annar sjór helti sér með ofsalegu vatnsfalli yfir stjórnborðsbóg skipsins og færði það í kaf, svo að yfirborð sjávarins var einhversstaðar fyrir ofan höfuð okkar, sem í stýrishúsinu voru. Tveir gluggar voru opnir og fylltist stýrishúsið strax og urðum við allir holdvotir, þóttumst við þó sleppa vel, þar sem engin rúða brotnaði. Nokkuð hægfara þótti mér hann að rífa sig upp úr kafinu, svo að ég setti á fulla ferð, var þá sem ósýnilegar hendur hefðu fest tök á skipinu og rykkt því upp með þvílíku afli, að enginn getur gert sér slíkt í hugarlund, nema sjálfur að vera þess aðnjótandi að vera viðstaddur, er þannig lagað kemur fyrir.
Helgi VE 333 13 gluggar voru á stýrishúsinu, 13 tröppur voru niður í káettu 13 kojur voru í lúkarnum
© Tryggvi Sigurðsson
Þegar skipið kom upp var ljótt um að lítast á þilfarinu, kassarnir sem á lúgunni voru sáust ekki lengur að undanskildum 4 kössum er skorðast höfðu á milli lúgunnar og spilsins, skjólborðið bakborðsmegin var horfið, hafði það farið eins og hitt, frá vanti og aftur að bátadekki, en sá munurinn var á að það fór út en hitt innfyrir.Báturinn, sem hékk í "davíðum" bakborðsmeginn hafði rifnað að endilöngu og var önnur síðan farin úr honum en hin lafði í annari "talíunni" og slógst í síðu skipsins, var sætt lagi og skotist út og flakið skorið frá. "Davíðurnar", sem báturinn hékk í höfðu lyfzt upp í hæð, sem svaraði tveim kassahæðum, sást þetta síðar er farið var að athuga skemdirnar, þá kom sem sé í ljós að þær höfðu rekist í gegnum tvo fiskkassa. Töluvert af fiski og kassabrotum var að flækjast á þilfarinu, ásamt yfirbreiðslunni, sem yfir kössunum var, svo og vír og kaðalsspottar, nú voru góð ráð dýr, svona drasl mátti ekki flækjast þarna til lengdar, gat þessu þá og þegar skolað fyrir borð og lent í skrúfu skipsins, og var þá beinn háski á ferðum; ofsaveður með stórsjó, sem búazt mátti við að helti sér yfir skipið á hverju augnabliki, og hryðjum sem voru svo svartar að ekki sást út úr augunum.
Hér á síldveiðum
Að senda menn út í þetta til að hreinsa til á þilfarinu sýndist ekki árennilegt, en skipi og mönnum varð að halda ofan á svo lengi, sem þess var kostur og ekki hika við neitt er að því gæti stuðlað og þetta varð að framkvæma svo fljótt sem auðið var. Rak nú hvað annað, maður var í flýti sendur niður í vélarrúm til að sækja olíu til að hella í sjóinn, til að reyna að deyfa mestu brotsjóana næst skipinu, og annar til að útbúa poka með olíublautum tvisti. Var þetta framkvæmt á lítið lengri tíma en ég þarf til að skrifa þetta niður. Nú var beðið nokkur augnablik eftir góðu lagi, hryðjan gekk yfir og varð tunglskinsbjart,var þá skotist út á þilfar og tvistpokunum komið fyrir í vöntunum, sínum hvoru megin. Skipinu var haldið vindréttu á meðan og höfð svo lítil ferð á sem frekast mátti, enda þurfti ekki að hafa mikla ferð til þess að stýrði, vegna þess að skipið lá nokkuð mikið fram og hélt sér þar afleiðandi sjálft vel upp að vindi. Um tíu mínútur gátu mennirnir verið úti í fyrstu lotu, en þeir afköstuðu miklu, yfirbreiðslunagátu þeir bundið þannig að hún varð þeim ekki til trafala á meðan þeir gengu frá vír- og tóspottum og kassabrotum, og athuguðu hvort nokkursstaðar kæmist sjór niður í skipið. Nú kom hryðja og voru þeir kallaði inn á meðan hún gekk yfir, lítið sást til, en skipið varðist vel og enginn sjór kom á það til skaða.
Helgi VE 333 í Vestmannaeyjahöfn á stríðsárunum. Dengurinn í forgrunni mun vera Sigurður faðir Tryggva "líkanasmiðs"
© Tryggvi Sigurðsson
Brátt birti til aftur og komust þeir út aftur og gátu nú gengið frá því, sem eftir var, létu þeir yfirbreiðsluna niður í ganginn hjá eldhúsinu og lokuðu siðan öllum götum, sem líklegt var að sjór gæti komist niður umog komu síðan fyrir líflínum milli brúar og masturs, einnig voru líflínur strengdar á milli bátadekks og vanta, því nú skýldu háu skjólborðin ekki lengur. Að þessu loknu komu þeir inn í stýrishúsið aftur og var nú ekki annað fyrir hendi en að láta fara svo vel um sig, sem föng voru á, og verja skipið fyrir áföllum. Veðurofsinn var orðinn afskaplegur, 11 til 12 vindstig og svo þungur að ef maður rak hausinn út um glugga átti maður erfitt með andardrátt, sérstaklega þó í hryðjunum. Á þessu gekk um nóttina, vaktir héldust óbreyttar. Undir morguninn fór að verða dálítið lengra á milli hryðjanna, en veðurhæðin hélst hin sama. Þegar bjart var orðið var sem yfir brimgarð að sjá, og rokið tætti svo sjóinn að hann var sem mjöll ryki. Kl. um tíu á fimtudagsmorgun kom mikill sjór yfir skipið, sleit hann stjórnborðsbátinn lausan og hvolfdi honum inn að stýrishúsinu þannig, að hann lá skorðaður á rönd milli stýrishússins og stólanna, sem hann áður sat í, reynt var að koma honum á réttan stað aftur, en reyndist ógerlegt að hreyfa hann, svo fast var hann klemmdur þarna niður og var því bundinn þar sem hann var kominn. Upp úr þessu var hægt að merkja linun á veðrinu. Um hádegi voru ekki orðin nema 9 til 10 vindstig en sjór var ennþá mikill. Kl. 14 var farið að skarða það mikið í sjóana að ég taldi reynandi að gera tilraun til að fara af stað aftur. Frh
Myndirnar eru úr safni Tryggva Sig.Og kann ég honum miklar þakkir fyrir lánið