16.01.2013 17:08

Járnbraut smáhafnanna II

Hér er framhald greinar Henry Háldánarsonar úr Sjómannablaðsinu Víking 1940: "Þjóðverjar eru nú í áróðursútvarpi sínu farnir að kalla strendur Bretlands "Strönd dauðans". Til þess að eiga hægara með að verja austurströndina, hafa Bretar orðið að grípa til þess ráðs að girða hana endilanga af að utan með tundurduflabelti, en skilja þó eftir mjótt sund milli þess og lands, fyrir skipin að fara eftir. Þó hefir Þjóðverjum tekizt hvað eftir annað, að smjúga inn og loka leiðinni með tundurduflum, eða kafbátar hafa setið þar fyrir skipum og sökkt þeim. Bretar verða því að vera sífellt á varðbergi, til þess að slæða sundin og halda leiðinni hreinni. Þetta er tafsamt og mjög erfitt viðureignar, sérstaklega í vondum veðrum, þegar duflunum er hætt við að losna eða fara á hreyfingu. Eru þá sundin talin ófær, og engum skipum leyft að fara í gegnum þau, fyrr en lokið er að slæða, og leiðin er aftur talin greið. Þegar eitthvert slys kemur fyrir, skip rekast á tundurdufl eða skotin í kaf, er umferðin undir eins stöðvuð og tundurspillarnir sendir á vettvang. Það er ekki hægt annað en dáðst að þessum hraðskreiðu útvörðum, sem þjóta um til að kannaleiðina, án þess að sinna því, að þeim er allsstaðar voði búinn. Meðan verið er að hreinsa leiðina, og hún er talin ófær,en svoleiðis getur það verið dögum saman þá hrúgast skipin saman á eftirlitshöfnunum í tuga, já jafnvel hundraðatali Það er nú í slíkum hóp, sem við hittum aftur aldursforseta íslenzku skipanna, "Járnbraut smáhafnanna".

ES VIDAR


                                                                                             © Handels- og Søfartsmuseets.dk

Eftir að hafa komizt klakklaust af, mestan hluta leiðarinnar, höfum við nú verið kyrrsettir í einni eftirlitshöfninni, bæði vegna sífelldra storma, og vegna þess, að undanfarna daga höfðu skipin hreint og beint hrunið niður á þeirri leið, sem við enn áttum eftir ófarna. í ellefu daga var beðið eftir því, að brautin væri svo greið, að forsvaranlegt væri að leggja í hana að áliti Breta sjálfra. Loks kom hinn langþráði dagur. Þau voru þá orðin hundrað eða fleiri skipin, sem biðu eftir því að þessi stund rynni upp. Þarna voru saman komin skip frá flestum siglingaþjóðum, en lang mest bar á skipum Norðurlandaþjóðanna. Þegar kom að því að leggja átti af stað, og hin innsigluðu fyrirmæli flotamálastjórnarinnar voru opnuð, kom það í ljós, að skipin höfðu verið númeruð niður og þeim ráðlagt að halda hóp samkvæmt því, en þeim til varnar myndu herskip vera látin fylgjast með þeim. Okkar góða skip, "Járnbrautin", var útnefnd "vicecommodore" skipalestarinnar og henni skipað í hið ytra fylkingarbrjóst .


ALEXANDRA



                                                                                             © Handels- og Søfartsmuseets.dk

Hvort sem það var að þakka hinum virðulega aldri skipsins eða trausti á okkar stórmyndarlega skipstjóra, sem vel hefði sómt sér sem aðmíráll yfir hvaða flota sem væri, þá áttum við nú að ráða ferðinni í okkar armi, sem við færum, en allar stefnur voru hinn helgasti leyndardómur öllum nema skipstjóranum. Nokkrum tímum áður en skipin lögðu af stað, byrjuðu könnunarflugvélar að sveima yfir skipunum og leiðinni fram undan. Herskipin, sem áttu að fylgjast með þessari skipalest, komu nú einnig á vettvang; nokkrir hraðskreiðir tundurspillar og vopnaðir togarar. Þetta var í raun og veru ekki nein regluleg herskipafylgd, heldur fremur kurteisisfylgd nokkurra skipa. Flokkunar-númer skipanna var gefið til kynna með flöggum, til frekari leiðbeininga. Fyrst lagði af stað skipalest, sem var á norðurleið, naut hún miklu meiri herskipafylgdar og þar á meðal kafbáta, datt okkur í hug, að þarna væri verið að flytja hergögn til Finnlands, enda voru mörg finnsk skip í þeim hóp. Það var rétt fyrir rökkrið á ákveðnu klukkuslagi, sem skipin byrjuðu að leggja af stað, eitt eftir annað, og byrjuðu að raða sér upp eins og þeim bar.

FRIGGA



                                                                                             © Handels- og Søfartsmuseets.dk

Þetta fór þó í nokkrum handaskolum. Svo góðir sjómenn, sem þessir menn af ýmsum þjóðum voru, þá gekk þeim þó illa að raða sér eftir ákveðnum reglum, númerin reyndust líka brengluð og sum komu aldrei fram. Eitt virtist þó öllum þessum skipum sameiginlegt, þau virtust engan áhuga hafa fyrir því að vera fremst, hvort sem það hefir verið af kurteisi eða meðfæddu yfirlætisleysi, og "Járnbrautin", sem aldrei hefir fengið neitt orð fyrir að vera gangstroka, komst að þeirri kynlegu niðurstöðu, að hún gekk bezt allra þessara skipa. Að lokum komst allt í sæmilega reglulegt horft, og hersingin hélt leiðar sinnar. Herskipin brunuðu meðfram röðunum og töluðu saman með ljósmerkjum. Flugvélarnar fóru heim í háttinn. Nærri strax skall myrkrið á, og hinn mikli floti þögulla skipa fann hlífð í dimmunni. Ekkert skipanna mátti sýna neitt ljós nema daufa týru aftast á skipinu, til varnar því, að þau keyrðu hvert á annað. Þótt fjandsamlegur kafbátur yrði var við þessi ljós, myndi hann eiga mjög erfitt með að átta sig á stefnu skipanna eða vita fjarlægð sína frá þeim, og tundurskeytin eru of dýr, til þess að skjóta þeim út í bláinn. Um borð í hverju þessara skipa var iðandi líf. Sjómenn, sem gengu að skyldustörfum sínum, niður í vélarúmi og annars staðar bak við byrgða glugga. Rólegir og æðrulausir menn, en þó vel vitandi þess, að dauðinn gat beðið þeirra viðhvert fótmál.
Á stjórnpallinum stóðu mennirnir, sem mest mæddi á þessa stundina, þeirra hlutverk var ekki ósvipað því, að eiga að hlaupa niður f jölfarna götu með bundið fyrir augu, en eiga þó að varast að rekast á neitt. Þeir verða að einbeita eftirtekt sinni, svo að þeir komi auga á boðaföll frá skipi sem nálgast, áður en þeir heyra skriðniðinn frá því, og í myrkrinu er illt að greina boðaföllin frá fallandi báru, og skriðniðinn frá ýlfrandi vindinum.


SLEIPNER


                                                                                             © Handels- og Søfartsmuseets.dk


Á ferðalagi eins og þessu, er köld yfirvegun og snarræði nauðsynlegt. Þarna varð allur þessi floti að fylgja þröngri leið og skipta oft um stefnur. Á löngum kafla á leiðinni var hin hreinsaða renna svo mjó, að aðeins einu skipi var fært í einu, og þarna urðu öll þessi skip að þræða í hvers annars kjölfar. Þannig leið nóttin og kærkomin dagsbrún birtist þessum mikla skipahóp, því að svo erfitt sem það getur verið að mæta sýnilegum óvinum, þá er það þó hálfu uggvænlegra að fást við þá ósýnilegu. Veðrið var dumbungslegt, og mátti kallast lélegt flugskyggni, og því meira kom það á óvart, er ljósvakinn byrjaði að titra af neyðarkalli danska skipsins "Alexandra", eign Sameinaða gufuskipafélagsins.

Bresk ? flugvél gætir skipalestar



                                                                                            Af netinu © ókunnur


Þetta danska skip, og tvö önnur dönsk skip,"Frigga" og "Sleipner", frá sama félagi, höfðu legið og beðið á sama stað og við, en dregið sig aftur úr, þegar skipin lögðu af stað og voru nú 20 mílur á eftir skipalestinni og fylgdu í kjölfar hennar og nutu þannig aðstoðar hennar, án þess beinlínis að teljast til hennar, sem þessi skip vildu forðast, til að styggja ekki nágranna sína, Þjóðverjana.
Sögur gengu um það að Sameinuðu skipin nytu þýskrar verndar, vegna þess að þau sluppu hjá óhöppum fyrstu mánuðina, og víst er það að merki félagsins var málað á skipin við hliðina á hinu eldgamla Dannebrog. Nú virtist þetta hvorugt duga, og var ekki hægt að afsaka sig með myrkri. Flugvélarnar létu sprengjum rigna yfir hin varnarlausu dönsku skip, og rökuðu einnig yfir þau með vélbyssuskotum. Danirnir höfðu í fersku minni af drif "Vidars", og biðu ekki boðanna, og tilkynntu í sífellu árásina, og leiðbeindu breskum eltingarflugvélum á staðinn.
Samhliða bárust fregnir af fleiri loftárásum. Litlu síðar tilkynntu tvö grísk skip aftarlega í skipalestinni, að þýzkar flugvélar hefðu ráðizt á þau. Um líkt leyti tilkynnti loftskeytastöðin í Wick við Pentlandsf jörðinn, að þýzkar flugvélar hefðu hafið árás á skip við ströndina þar norður frá. Hvaðanæfa frá ströndinni bárust nú fregnir af skipum, sem tilkynntu árás flugvéla.

KINDALE


                                                                                             © Humberman

Skipið "Kildale", sem var 20 mílur út af Spurn, tilkynnti að tvær þýzkar flugvélar væru í sífellu að varpa sprengjum yfir skipið. Helst virtust flugvélaranr hafa ágirnd á skipaflotanum, sem við vorum með, en fóru þó í kringum skipalestina eins og köttur í kringum heitan graut, og réðust helzt að skipum, sem voru ein sér. Þeim tókst að hitta lítið norskt skip, "Tempo", og sökkva því; þrír biðu bana. Klukkan tæplega 11 gerði ein þýzk f lugvél sig líklega til að ráðast á okkur, og stefndi yfir okkur í fremur lítilli hæð. Þessi flugvél kom utan úr hafi. Áður en hún náði að komast yfir okkur, byrjaði brezkur tundurspillir, sem var nálægur, að skjóta á hana. Eldtungur teigðu sig út í loftið og hvert skotið reið af eftir annað. Flugvélin snarbeygði út af og reyndi að hækka sig. Við sáum hvar kúlurnar sprungu í loftinu, fyrst langt frá henni, svo nær henni og síðast hjá henni, flugvélin missti flugið og byrjaði að hrapa, náði sér svo aftur á strik, snéri sér við og hélt aftur út til hafs, en hafði sýnilega daprast flugið, fór sífellt lækkandi og steyptist að lokum í sjóinn. Ein tveggja hreyfla Henkel-flugvél var úr sögunni. I Þýzkalandi er  aðstandendum fimm manna eða fleiri harmur búinn. Bretar munu hafa rekið upp fagnaðaróp, og sjómönnunum á skipunum í kring um hafa fundizt Þjóðverjarnir fá makleg málagjöld. Við heiman af íslandi, sem ekkert þekkjum til ófriðar, stöndum agndofa; ef flugvélin hefði ekki verið stöðvuð í tæka tíð, hefði kannske 22 fjölskyldur í Reykjavík átt um sárt að binda



Lokað fyrir álit
Flettingar í dag: 6071
Gestir í dag: 265
Flettingar í gær: 0
Gestir í gær: 0
Samtals flettingar: 196164
Samtals gestir: 8409
Tölur uppfærðar: 14.3.2025 23:54:53
clockhere